Árangur af Netsjúkraþjálfun

Netsjúkraþjálfun fékk styrk úr Vísindasjóði Félags sjúkraþjálfara til að framkvæma verkefnið „Árangur af Netsjúkraþjálfun“. Markmiðið verkefnisins var að skoða árangur af Netsjúkraþjálfun sem meðferð fyrir einstaklinga með stoðkerfisverki.

 

Spurningalistar með 6 spurningum voru lagðir fyrir einstaklinga sem komu í Netsjúkraþjálfun árið 2019, í upphafi og lok meðferðar. Þessir einstaklingar komu í skoðunartíma hjá sjúkraþjálfara, fengu endurhæfingaáætlun sem samanstóð af sérhæfðum æfingum, fræðslu í takt við markmið og eftirfylgd. Einstaklingar voru í þjónustu allt frá 4 vikum og upp í 6 mánuði. Skilyrði fyrir þátttöku í þessari þjónustukönnun var að einstaklingur þurfti að hafa svarað öllum spurningunum í upphafi og við lok meðferðar. Þegar þau skilyrði voru uppfyllt, voru 39 þátttakendur. Um var að ræða einstaklinga með allskyns meiðsli og álagseinkenni, til dæmis verkir í kringum háls-, brjóst- og mjóhrygg, mjaðmir, axlir og herðar, hné og ökkla. Einnig voru þetta einstaklingar að koma eftir liðskipti, beinbrot og slys.

 

Út úr þessari þjónustukönnun kom að 59% af þessum einstaklingum höfðu farið áður í sjúkraþjálfun útaf sama vanda, 69% af þessum einstaklingum stunduðu reglulega hreyfingu að staðaldri og 97% af þessum einstaklingum myndu mæla með Netsjúkraþjálfun fyrir aðra með líkamleg álagseinkenni eða verki. Notaður var VAS verkjakvarði sem er kvarði frá 0-10, þar sem 0 eru engir verkir og 10 eru verstu mögulegu verkir. Meðaltalsbreyting hjá þessum einstaklingum sem komu í meðferð hjá Netsjúkraþjálfun var lækkun um 2,7 á VAS verkjakvarðanum.

 

Niðurstöðurnar sýna góðan árangur hjá þessum einstaklingum eftir meðferð hjá Netsjúkraþjálfun. Áhugavert væri í kjölfarið að sjá hvernig þessum einstaklingum vegnar 3 og 6 mánuðum eftir útskrift. Einnig væri áhugavert að að sjá ítarlegri spurningalista hjá einstaklingum sem koma í Netsjúkraþjálfun ásamt því að bera það saman við hefðbundna meðferð við sambærilegum kvillum.