Hreyfing og verkir

Stoðkerfisverkir

Stoðkerfisvandamál einkennast helst af verkjum og oft þrálátum verkjum, takmörkun á hreyfanleika ásamt skertri getu til að stunda vinnu og taka þátt í félagslegum atburðum. Algengustu stoðkerfisvandamálin eru slitgigt, háls- og bakverkir, beinbrot, meiðsli og bólguástand eins og liðagigt.

Einkenni stoðkerfisverkja fara eftir því hvort verkirnir eru tilkomnir vegna meiðsla eða álagstengdra þátta og hvort þeir séu langvarandi eða nýtilkomnir. Einnig geta verkir og verkjaupplifun verið mismunandi eftir hverjum og einum.

Algeng einkenni stoðkerfisverkja eru:

·        Staðbundnir eða útbreiddir verkir sem geta versnað við hreyfingar.

·        Verkir eða stífleiki í líkamanum.

·        Þreyta.

·        Svefnvandamál.

·        Vöðvakippir.

·        Máttminnkun og dofi.

·        Sviðatilfinning í vöðvum.

Álagstengdir stoðkerfisverkir

Álagstengdir stoðkerfisverkir geta verið tilkomnir vegna líkamsgerðar viðkomandi og/eða útaf slæmri líkamsstöðu og líkamsbeitingu, ofálagi og hreyfingarleysi. 

Þegar upp koma álagstengdir stoðkerfisverkir er mikilvægt að huga að því hvort líkamsstaða, beiting eða einhver endurtekin hreyfing í daglegu lífi geti verið rót vandans. Það gæti til dæmis verið slæm líkamsstaða og beiting við tölvuvinnu. 

Dæmi um það gæti verið slæm staða við skrifborð:

·        Mikilvægt er að stilla skrifborð, stóla og tölvuskjái þannig að sem minnsta álag sé á stoðkerfið.

·        Standa upp á hálftíma fresti.

·        Standa og sitja til skiptis við skrifborð. Gott er að miða við að sitja í 20-30 mínútur og standa svo í 20-30 mínútur.

·        Hafa mús og lyklaborð nálægt líkamanum.

Einnig gæti það verið slæm líkamsstaða og beiting við líkamlega erfiða vinnu:

·        Í vinnu þar sem mikið þarf að lyfta þungum hlutum er brýnt að halda hlutunum nálægt sér og að mjaðmir og axlir snúi í sömu stefnu og hreyfist í takt.

·        Þar sem mikið er um endurteknar hreyfingar skiptir miklu að viðhalda góðri stöðu og að jafnt álag sé í báðar áttir ef hægt er.

Hreyfing og álagstengdir stoðkerfisverkir

Regluleg hreyfing getur verið fyrirbyggjandi ásamt því að draga úr einkennum stoðkerfisverkja. Styrktar- og þolþjálfun leiðir af sér aukna afkastagetu vöðva, sina og beina sem gerir þá stoðkerfið betur í stakk búið að takast á við það líkamlega álag sem fylgir daglegu lífi. Þeim mun betur sem stoðkerfið getur tekist á við álag, þeim mun minni líkur eru á álagstengdum stoðkerfisverkjum.

Algengt er þó að þegar einstaklingar byrja að hreyfa sig eftir tímabil hreyfingarleysis að upp komi verkir, annarsvegar auknir verkir eða verkir sem viðkomandi hefur ekki fundið fyrir áður. Það þarf þó ekki að þýða að hreyfingin sjálf sé aðal ástæðan fyrir auknum eða nýjum verkjum heldur mögulega er líkamsstaða, líkamsbeiting og/eða einhver endurtekin hreyfing í daglegu lífi vandamálið og við aukið álag eins og að byrja að hreyfa sig að þá komi verkirnir upp eða aukist. Mikilvægt er að fara rólega af stað þegar byrjað er að hreyfa sig, beita sér rétt og vel við hreyfingu og í daglegu lífi og leyfa líkamanum að aðlagast smátt og smátt.

Ráð þegar upp koma álagstengdir stoðkerfisverkir:

·        Létt hreyfing (rólegur göngutúr / hjólatúr / sund).

·        Draga tímabundið úr því álagi sem mögulega gæti verið að valda verknum.

·        Huga að góðri líkamsstöðu og líkamsbeitingu.

·        Losa um stífa vefi með nuddbolta eða nuddrúllu.

·        Leita aðstoðar hjá fagaðila.

Ráð til að fyrirbyggja álagstengda stoðkerfisverki:

·        Stunda reglulega styrktar- og þolþjálfun.

·        Huga að góðri líkamsstöðu og líkamsbeitingu í vinnu og daglegu lífi.

·        Svefn í 7-8 klukkustundir á nóttu hjálpar til við að draga úr bólgum.

Greinin er skrifuð af Söru Lind Brynjólfsdóttur og birtist fyrst á www.velvirk.is